Hver vill skítinn, hver vill reykinn...

MIG langar að deila með ykkur sögu af alveg stórkostlegri konu sem heitir Hazel Henderson og var heimavinnandi húsmóðir í New York. Hún tók eftir því að þegar dóttir hennar hafði leikið sér úti var hún alltaf þakin sóti og hún var farin að þjást af stöðugum hósta. Eins og hver önnur umhyggjusöm móðir gat hún ekki horft upp á þetta aðgerðarlaus svo að hún hóf að skrifa bréf til borgaryfirvalda til að hvetja þau til þess að draga úr mengun. En hún fékk alls staðar sömu svörin, að það kostaði of mikið að draga úr mengun. Þau sýndu henni himinháar tölur og töluðu um hagfræðinga og viðskiptafræðinga sem notuðu fræðileg orð eins og "hagur borgarinnar" og "nauðsynlegur fórnarkostnaður" og svo bentu þeir henni á að hún væri nú bara ómenntuð húsmóðir sem vissi ekkert um gang lífsins. Hlutirnir væru bara þannig að ef þau menguðu ekki þá myndi bara einhver annar gera það og sá hinn sami myndi græða á því í staðinn fyrir þau.

En Hazel Henderson fannst þetta furðulegur málflutningur. Í bók sinni Íbúi jarðar segist hún hafa hugsað með sér að ef hagfræðin gerði ráð fyrir því að eyðileggja umhverfið, spilla heilsu fólks og orsaka þjáningar dóttur hennar þá hlyti eitthvað að vera að hagfræðinni. Og hún ákvað því að fara sjálf að læra hagfræði. Hún ákvað einnig að láta rannsaka aukningu sjúkdóma af völdum mengunar og þann kostnað sem sú aukning hefði haft í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og borgina. Í ljós kom að sá kostnaður var margfalt hærri en sú tala sem borgaryfirvöld höfðu sagt henni að myndi kosta að draga úr mengun í borginni. Í dag hefur húsmóðirin frá New York hrist upp í kenningum Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði og hefur verið gerð að sérstökum ráðgjafa í umhverfisvænni hagfræði hjá yfir 30 löndum.

Það sem saga Hazel Henderson kennir okkur er að hagfræði er ekki óskeikul vísindagrein. Þvert á móti snýst hún um pólitík. Hún snýst um hvað sá sem reiknar dæmið ákveður taka með í útreikninginn og hvað hann ákveður að láta liggja á milli hluta.

Hazel sagði í viðtali að "þegar hún hóf að læra hagfræði hafi hún séð að grunnur hefðbundinna hagfræðikenninga væri einfaldlega rangur og að þær brengluðu samfélagið". (Henderson, 2004) Þær brengla samfélagið af því að þær segja okkur að við höfum ekki efni á góðri heilsu og manngæsku, að ef við fylgjum ekki stóriðjustefnu og samþykkjum að eyðileggja landið okkar þá gerir bara einhver annar það og þær segja okkur að við vitum ekkert um hvað við erum að tala af því að við höfum ekki lært að lesa í línurit og mælikvarða. Þeir sem hlusta fara að finna til andlegs vonleysis og á meðan flýtur samfélagið sofandi að feigðarósi.

En mæður eins og Hazel Henderson láta ekki blekkjast af slíkum áróðri af því að þær hafa "eytt of miklum tíma og alúð í uppeldi barna sinna til þess að leyfa sér að láta undan sinnuleysi, minnimáttarkennd og vantrú á eigin sannfæringu þegar einhver ógnar heilsu barna þeirra og framtíð". (Henderson, 2004)

Síðustu vikurnar hef ég heyrt ótrúlegan hræðsluáróður frá aðstandendum álversins þar sem verið er að reyna að sannfæra Hafnfirðinga um að ef álverið verði ekki stækkað þá munum við hendast aftur á steinöld og verða þekkt sem þriðjiheimurinn Hafnarfjörður.

Við megum ekki láta glepjast af slíkum hræðsluáróðri. Við ættum ekki að takmarka framtíð okkar með slíkum hugsunarhætti. Við ættum þvert á móti að sjá fyrir okkur bestu framtíðina og vinna svo að henni án nokkurrar málamiðlunar. Því að slíkur er máttur einstaklingsins og börnin okkar eiga ekkert minna skilið.

Mig langar að deila með ykkur broti úr jarðarsáttmálanum sem lagður var fyrir heimsfundinn í Jóhannesarborg 2002:

"Lífið felur oft í sér togstreitu milli mikilvægra gilda. Þetta getur þýtt að taka þarf erfiðar ákvarðanir...

Allir einstaklingar, samtök, fyrirtæki, ríkisstjórnir og fjölþjóðlegar stofnanir ættu að líta til eftirfarandi grunngilda eftir leiðsögn og til að meta afrakstur sinn...

Virðum jörðina og lífið í öllum sínum fjölbreytileika.

Verndum ofgnótt og fegurð jarðar fyrir núlifandi og komandi kynslóðir.

Komum í veg fyrir skaða sem er besta umhverfisverndin og, þegar þekking er takmörkuð, beitum varúðarnálgun...

Við stöndum á tímamótum í jarðarsögunni. Sá tími er runninn upp að mannkynið þarf að velja sér framtíð. Á sama tíma og veröldin verður sífellt samtengdari og brothættari felur framtíðin í sér bæði stórar hættur og mikla möguleika." (Jarðarsáttmálinn, 2002)

Þess vegna ætla ég að kjósa gegn stækkun álversins hinn 31. mars.

Höfundur er leikari og leikstjóri.


Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband